Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Skruddurnar

Við stofnuðum nokkrir vinir lesklúbbinn "Skruddurnar" fyrir stuttu. Tilgangurinn er að sjálfsögðu að hittast í góðum félagsskap og ræða bókmenntir og önnur andans mál. Fyrsta bókin sem tekin var fyrir er "Hrafninn" eftir Vilborgu Davíðsdóttir og fannst mér það vel valið.

Lög klúbbsins voru samþykkt neðantalin.

1. Stefnt er að því að halda fund á fjögurra sunnudaga fresti að kvöldi dags.
2. Á hverjum fundi skal ákveðið hver heldur næsta fund og hvaða bók skal lesin.
3. Allir lesa sömu bókina.
4. Sá/sú sem heldur fundinn, fær að velja bókina sem verður tekin fyrir næst. Ef meirihluti mættra félagsmanna mótmælir viðkomandi bók harðlega skal eitthvað annað merkisrit tekið.
5. Eins skal fundagerðarbókin fylgja á alla fundina og vera til taks ef fundarmenn fyllast mikilli ritþörf. Eftir hvern fund skal færa í bókina samantekt úr þeirri visku sem hnaut af vörum félagsmanna og kvenna.
6. Umræður skulu fara málefnalega fram og nálgast skal viðfangsefnin með jákvæðum huga.
7. Handalögmál og andlegt ofbeldi er bannað, jafnvel þó að skoðanir séu mjög skiptar.
8. Notkun áfengis og vímuefna skal stillt í hóf.
9. Börn og grænir göróttir kokteilar eru bannaðar á þessar samkomur.
10. Félagsmenn og konur skulu virða þessar reglur eða að öðrum kosti þurfa að lesa allt Thor Vilhjálmsson safnið og verða síðan að taka próf úr því efni sem hinir félagsmenn búa til.

Næsti fundur verður á sunnudag og spennandi að heyra viskuna sem félagar eiga eftir að ausa úr brunni sínum :-)


The Great Northern Whalekill

Það er komið nafn á nýja Mínus plötu sem kemur út 16 apríl næstkomandi. "The Great Nothern Whalekill" heitir platan. Nýtt lag "The Futurist" verður fáanlegt sem frítt niðurhal fyrir gesti mbl.is 19 mars og fer í spilun á útvarpsstöðvum þann 20 mars. Það eru komin 3 ár síðan síðasta plata Mínus kom út þannig að eflaust eru einhverjir spenntir. Og eflaust er mörgum líka alveg sama ;-)


Gott átak í gangi

Það er góð færsla inná bloggi skessa.blog.is þar sem er beðið um samtöðu til að banna nauðgunarlyf. Hvet alla til að kíkja inná síðuna hjá henni og skoða málið.

Útgáfutónleikar Ólafar Arnalds

Fyrir þá sem hafa áhuga á hugljúfri tónlist og notalegri kvöldstund mæli ég með útgáfutónleikum Ólafar Arnalds sem verða haldnir á Nasa næstkomandi miðvikudagskvöld. Ólöf hefur verið áberandi undanfarið. Hún semur tónlistina ásamt Röggu Gísla við Píkusögur sem er nú verið að flytja og gaf nýverið út sólóplötu sem er að fá fína dóma viðast hvar. Þetta verða semsagt útgáfutónleikar fyrir þá plötu.Þetta verða sitjandi tónleikar sem mér finnst hið besta mál. Mætti gera meira af því á Nasa.

Verst að ég kemst ekki sjálfur þar sem ég er að dæma í Músíktilraunum sama kvöld en mér finnst rétt að vekja athygli ykkar kæru bloggarar á spennandi atburðum :-)


Músíktilraunir

Í næstu viku hefjast Músíktilraunir 2007.

 Undirritaður situr í dómnefnd og hefur gert það í einhver ár Smile Ég verð að segja að þetta er með því skemmtilegra sem ég geri. Það eru 50 hljómsveitir sem taka þátt í undankvöldunum og allavega 10 jafnvel fleiri sem komast í úrslit. Frjóleikinn og spilagleðin í þessum hljómsveitum er ómetanlegur og þarna sér maður best hvaða músíkbylgjur eru í gangi. 

 

Það er líka mjög gaman að taka þátt í störfum dómnefndar. Þar er mikið rökrætt og alltaf skiftar skoðanir enda fólk sem lifir og hrærist í tónlistinni og allir eiga það sameiginlegt að hafa ódrepandi áhuga á tonlist. Eflaust kannast margir við einhverjar sigursveitir Músíktilrauna sem eru eftirtaldar.

 


 

1982 - Dron

1983 - Dúkkulísurnar

1984 - Verkfall kennara keppni féll niður

1985 - Gipsy

1986 - Greifarnir

1987 - Stuðkompaníið

1988 - Jójó

1989 - Laglausir

1990 - Nabblastrengir (Umbilical cords)

1991 - Infusoria (Sororicide)

1992 - Kolrassa Krókríðandi (Bellatrix)

1993 - Yukatan

1994 - Maus

1995 - Botnleðja (Silt)

1996 - Stjörnukisi

1997 - Soðin Fiðla

1998 - Stæner

1999 - Mínus

2000 - XXX Rottweiler hundar

2001 - Andlát

2002 - Búdrýgindi

2003 - Dáðadrengir

2004 - Mammút

2005 - Jakobínarína

2006 - The Foreign Monkeys

 

Eins og sést á þessari upptalningu eru margar hljómsveitir sem hafa náð langt og svo einhverjar sem hafa alveg horfið.

 

En hjá undirrituðum og fleirum er skemmtileg vika framundan.

 

 


Kosningar

Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki enn hvað ég á að kjósa í vor. Ég veit reyndar að aldrei kýs ég Framsókn eða Frjálslynda flokkinn af augljósum ástæðum. Ég kaus Samfylkinguna síðast og er í hjarta mínu hógvær miðjumaður. Ég hef það á tilfinningunni að margir séu búnir að fá nóg af þeirri græðgi og hroka sem virðist tröllríða okkar þjóðfélagi. Ég held að margir vilja mannlegra og umhverfisvænna þjóðfélag. Minni misskiftingu og óráðsíu. Draumórar segja sumir, það er ekki hægt að hafa velmegun án misskiftingu og þetta er bara öfund í fólki að gagnrýna bankastjóra fyrir að flytja inn útjaskaða poppara fyrir einkapartý fyrir margra ára árslaun flestra. En er þetta bara ekki birtingarmynd misskiftinarinnar? Ég held það, fólk er búið að missa sig í óráðsíu.

Þetta væri tækifæri fyrir Samfylkinguna að hrífa fólk eins og mig með sér núna en af hverju gerist það ekki? Ég veit ekki hvað Samfylkingin stendur fyrir. Ég veit hvað Sjálfstæðisflokkur og VG standa fyrir og margt er ekki ánægður með í þeirra stefnu. En ég veit allavega hver stefna þeirra er (Svo er annað mál hvort þeir standi við hana). Þegar ég reyni að átta mig á afstöðu Samfylkingarinnar fæ ég sjaldan svar. Hver er afstaðan til umhverfismála? Hver er afstaðan til hvalveiða? Hvað ætla þeir að gera í málefnum ESB? Hver er afstaða þeirra til skattamála? Stóriðju?

Ég er ekki sá eini sem finnst þetta. Allar tölur í skoðanakönnunum benda til þess og svo finn ég geysilegann pirring í Samfó og þeir virðast ekki vilja líta á staðreyndir og finnst fólk bara heimskt að skilja ekki þeirra stefnu. Þeir eru með hausinn í sandinum og þurfa heldur betur að láta hendur standa fram úr ermum ef þeir eiga að fá mitt athvæði.

En það eru spennandi vikur framundan og að sjálfsögðu tekur maður afstöðu á kjörstað :-)


Michael Reeves

Michael Reeves er ekki þekkt nafn í kvikmyndabransanum enda lést hann ungur og leikstýrði aðeins 3 kvikmyndum.

Reeves byrjaði snemma í kvikmyndabransanum og fyrsta starfið sem hann fékk var sem aðstoðarmaður hjá Don Siegel. Hann bankaði upp hjá honum óvænt einn daginn og sagði "Hæ ég heiti Michael Reeves og kem frá Englandi og þú ert uppáhaldsleikstjórinn minn". Hann var ráðinn :-)

Eftir nokkur ár við hin og þessi störf í kvikmyndum, þar á meðal var hann aðstoðarleikstjóri við kvikmyndina "Castle of the living dead" (1964) með Christopher Lee og Donald Sutherland. Hans fyrsta mynd sem leikstjóri var ódýr hrollvekja "Revenge of the blood beast" (1966) með Barbara Steel. Hún var ráðin í einn dag og fékk 1000 dollara fyrir en það kom hvergi fram í samningum hvað dagurinn átti að vera langur þannig hún var þræluð út í 18 klukkutíma og var alveg brjáluð út í framleiðandann og talaði víst aldrei við hann aftur :-) Ég hef ekki séð þessa mynd en hún þykir ekki góð.

Næsta mynd var "The Scorcerer" með Boris Karloff í aðalhlutverki. Hún vakti ekki mikla athygli á sínum tíma en hefur verið að komast á "cult status" núorðið. Ég sá þessa mynd fyrir stuttu og þótti hún stórfín. Hún er mjög "60's". Gerist mikið á næturklúbb undir dúndrandi 60's tónlist og stelpum í minipilsum. Leikkonan Susan George sem síðar varð fræg fyrir "Straw dogs" sést í pínulitlu hlutverki og Catherine Lacey sem var þekkt karakterleikkona lék aðal skúrkinn.
Ég mæli með þessari mynd fyrir þá sem hafa áhuga á ódýrum hrollvekjum 60's kúltúr.

En síðasta mynd Reeves og sú besta og þekktasta var myndin "Witchfinder General" (1968) með hrollvekjumeistaranum Vincent Price í aðalhlutverki. Þessi mynd er ein af bestu hrollvekjum sem komu uppúr bresku hrollvekjubylgjunni og á sínum tíma þótti hún vera ein ofbeldisfyllsta kvikmynd sem gerð hafði verið í Englandi. Þessi mynd er "must" fyrir hrollvekjuaðdáendur. Vincent Price sem var mikil stjarna á þessum tíma var undrandi þegar Reeves bað hann um að hætta ofleika svona. "Heyrðu vinur" sagði hann "Ég hef gert 84 kvikmyndiir, hvað hefur þú gert margar"? "2 góðar" sagði Reeves og Vincent Price skellihló og gerði það sem honum var sagt og er leikur hans stórgóður í myndinni og einn af eftirminnilegustu karakterum sem hann skilur eftir sig. Myndin sló í gegn og leið Michael Reeves virtist greið.

En Reeves þjáðist af þunglyndi og einhverjum geðrænum sjúkdómum og var farinn að drekka mikið. Hann var ráðinn til að leikstýra myndinni "The Oblong Box" en dó af of stórumm skammti af svefnlyfjum ofan í áfengi. Hann var ekki talinn hafa fyrirfarið sér heldur að það hafi verið slys. Hann var aðeins 24 ára.

Það hefði verið gaman að sjá hvert ferill Michael Reeves hefði leitt hann. Hann hafði allavega frumleika og kraft sem hefði getað gert hann einn af þeim stóru.


Fyrsta bloggfærsla

Ég áhvað að færa mig yfir á moggabloggið. Mannlífið hér er fjölbreytt og heillandi og mun ég nota bloggið fyrir áhugamálin og eins er tækifæri að taka þátt í æðislegum skoðanaskiftum sem heillar mig mjög.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband