Skruddurnar
16.3.2007 | 22:37
Við stofnuðum nokkrir vinir lesklúbbinn "Skruddurnar" fyrir stuttu. Tilgangurinn er að sjálfsögðu að hittast í góðum félagsskap og ræða bókmenntir og önnur andans mál. Fyrsta bókin sem tekin var fyrir er "Hrafninn" eftir Vilborgu Davíðsdóttir og fannst mér það vel valið.
Lög klúbbsins voru samþykkt neðantalin.
1. Stefnt er að því að halda fund á fjögurra sunnudaga fresti að kvöldi dags.
2. Á hverjum fundi skal ákveðið hver heldur næsta fund og hvaða bók skal lesin.
3. Allir lesa sömu bókina.
4. Sá/sú sem heldur fundinn, fær að velja bókina sem verður tekin fyrir næst. Ef meirihluti mættra félagsmanna mótmælir viðkomandi bók harðlega skal eitthvað annað merkisrit tekið.
5. Eins skal fundagerðarbókin fylgja á alla fundina og vera til taks ef fundarmenn fyllast mikilli ritþörf. Eftir hvern fund skal færa í bókina samantekt úr þeirri visku sem hnaut af vörum félagsmanna og kvenna.
6. Umræður skulu fara málefnalega fram og nálgast skal viðfangsefnin með jákvæðum huga.
7. Handalögmál og andlegt ofbeldi er bannað, jafnvel þó að skoðanir séu mjög skiptar.
8. Notkun áfengis og vímuefna skal stillt í hóf.
9. Börn og grænir göróttir kokteilar eru bannaðar á þessar samkomur.
10. Félagsmenn og konur skulu virða þessar reglur eða að öðrum kosti þurfa að lesa allt Thor Vilhjálmsson safnið og verða síðan að taka próf úr því efni sem hinir félagsmenn búa til.
Næsti fundur verður á sunnudag og spennandi að heyra viskuna sem félagar eiga eftir að ausa úr brunni sínum :-)
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Frábærir svona bókaklúbbar....Verður gaman að fylgjast með ykkur vonandi hér á netinu. Vilborg Davíðs er fínn rithöfundur og vinnur vel með heimildir og skapar virkilega sterka sýn inn í fortíðina á sögulegan hátt.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 17.3.2007 kl. 10:19
Ég legg til að viðurlög við því að mæta ólesinn á Skruddukvöld verði þau að viðkomandi þurfi að sjá öðrum meðlimum fyrir eðal belgískum trufflum og ítölskum ís eins og þeir geta í sig látið það kvöldið. Síðan þurfi þeir að fara orðrétt með kafla úr Sjálfstæðu fólki
Grumpa, 18.3.2007 kl. 15:43
Púff þar var ég heppinn. Ég kláraði bókina áðan :-)
Kristján Kristjánsson, 18.3.2007 kl. 15:54
Vel til fundið. Ég mæli með kaflanum um miðilsfundinn úr Heimsljósi Laxness. Fyndnasti lestur íslenskra bókmennta. Svo er það náttúrlega bloggið. Sögukornin hans Jens Guð vinar okkar eru ekki slæmur lestur.
Jón Steinar Ragnarsson, 18.3.2007 kl. 17:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.