Michael Reeves
10.3.2007 | 12:08
Michael Reeves er ekki þekkt nafn í kvikmyndabransanum enda lést hann ungur og leikstýrði aðeins 3 kvikmyndum.
Reeves byrjaði snemma í kvikmyndabransanum og fyrsta starfið sem hann fékk var sem aðstoðarmaður hjá Don Siegel. Hann bankaði upp hjá honum óvænt einn daginn og sagði "Hæ ég heiti Michael Reeves og kem frá Englandi og þú ert uppáhaldsleikstjórinn minn". Hann var ráðinn :-)
Eftir nokkur ár við hin og þessi störf í kvikmyndum, þar á meðal var hann aðstoðarleikstjóri við kvikmyndina "Castle of the living dead" (1964) með Christopher Lee og Donald Sutherland. Hans fyrsta mynd sem leikstjóri var ódýr hrollvekja "Revenge of the blood beast" (1966) með Barbara Steel. Hún var ráðin í einn dag og fékk 1000 dollara fyrir en það kom hvergi fram í samningum hvað dagurinn átti að vera langur þannig hún var þræluð út í 18 klukkutíma og var alveg brjáluð út í framleiðandann og talaði víst aldrei við hann aftur :-) Ég hef ekki séð þessa mynd en hún þykir ekki góð.
Næsta mynd var "The Scorcerer" með Boris Karloff í aðalhlutverki. Hún vakti ekki mikla athygli á sínum tíma en hefur verið að komast á "cult status" núorðið. Ég sá þessa mynd fyrir stuttu og þótti hún stórfín. Hún er mjög "60's". Gerist mikið á næturklúbb undir dúndrandi 60's tónlist og stelpum í minipilsum. Leikkonan Susan George sem síðar varð fræg fyrir "Straw dogs" sést í pínulitlu hlutverki og Catherine Lacey sem var þekkt karakterleikkona lék aðal skúrkinn.
Ég mæli með þessari mynd fyrir þá sem hafa áhuga á ódýrum hrollvekjum 60's kúltúr.
En síðasta mynd Reeves og sú besta og þekktasta var myndin "Witchfinder General" (1968) með hrollvekjumeistaranum Vincent Price í aðalhlutverki. Þessi mynd er ein af bestu hrollvekjum sem komu uppúr bresku hrollvekjubylgjunni og á sínum tíma þótti hún vera ein ofbeldisfyllsta kvikmynd sem gerð hafði verið í Englandi. Þessi mynd er "must" fyrir hrollvekjuaðdáendur. Vincent Price sem var mikil stjarna á þessum tíma var undrandi þegar Reeves bað hann um að hætta ofleika svona. "Heyrðu vinur" sagði hann "Ég hef gert 84 kvikmyndiir, hvað hefur þú gert margar"? "2 góðar" sagði Reeves og Vincent Price skellihló og gerði það sem honum var sagt og er leikur hans stórgóður í myndinni og einn af eftirminnilegustu karakterum sem hann skilur eftir sig. Myndin sló í gegn og leið Michael Reeves virtist greið.
En Reeves þjáðist af þunglyndi og einhverjum geðrænum sjúkdómum og var farinn að drekka mikið. Hann var ráðinn til að leikstýra myndinni "The Oblong Box" en dó af of stórumm skammti af svefnlyfjum ofan í áfengi. Hann var ekki talinn hafa fyrirfarið sér heldur að það hafi verið slys. Hann var aðeins 24 ára.
Það hefði verið gaman að sjá hvert ferill Michael Reeves hefði leitt hann. Hann hafði allavega frumleika og kraft sem hefði getað gert hann einn af þeim stóru.
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.